Skynsamlegt að láta konu dæma leikinn

Stephanie Frappart dæmdi úrslitaleik Bandaríkjanna og Hollands á HM kvenna …
Stephanie Frappart dæmdi úrslitaleik Bandaríkjanna og Hollands á HM kvenna í Frakklandi í sumar. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er hæstánægður með þá ákvörðun UEFA að láta kvenkynsdómara dæma leik Liverpool og Chelsea í Stórbikar Evrópu sem fram fer í Istanbúl í kvöld. Frakkinn Stephanie Frappart mun dæma leikinn en þetta verður í fyrsta sinn sem kona mun dæma úrslitaleik hjá UEFA.

„Loksins!“ sagði Klopp léttur á blaðamannafundi í morgun þegar hann var spurður út í þá ákvörðun UEFA að setja kvenkynsdómara á leikinn. „Það var kominn tími til og ég er ánægður með að fá að taka þátt í þessu sögulega augnabliki. Þetta er mjög skynsamleg ákvörðun hjá UEFA að láta konu dæma þennan afar mikilvæga leik.

Þetta er vissulega í fyrsta sinn sem þetta gerist en vonandi ekki það síðasta. Við munum ekki reyna að gera dómaranum erfitt fyrir og vonandi verður þetta vel spilaður leikur tveggja góðra liða. Ég mun setja upp sparisvipinn fyrir leik því ef ég geri það ekki gæti móðir mín orðið ósátt við mig,“ sagði Klopp.

mbl.is