Íslenskt sælgæti fyrir hvert mark

Guðjón Þórðarson og Jens Martin Knudsen
Guðjón Þórðarson og Jens Martin Knudsen Ljósmynd/NSÍ

Knattspyrnuþjálfarinn Guðjón Þórðarson er að gera fína hluti með lið NSÍ í Færeyjum en lærisveinar hans sitja í toppsæti efstu deildarinnar eftir 5:1-útisigur á Argja í dag. Ekkert lið hefur skorað fleiri mörk í deildinni í ár, 49 í 18 leikjum, en lykillinn að þessum árangri gæti verið íslenskt sælgæti.

Það er færeyski fjölmiðillinn in.fo sem greinir frá þessu en Guðjón sagði í viðtali að hann gæfi markaskorurum sínum íslenskt sælgæti af varamannabekknum er þeir skora mark. „Þetta er gamall vani hjá mér, ég hef gert þetta síðan ég var ungur maður. Þegar ég kom hingað flutti ég inn íslenskt sælgæti til að hafa í poka,“ sagði Guðjón meðal annars við færeyska blaðamanninn.

„Eftir hvert mark gef ég nammi og í dag var ég örlátur þar sem við skoruðum fimm mörk,“ bætti hann við en að lokum segir í fréttinni að um Djúpur, Bingókúlur og Freyju Mix sé að ræða.

mbl.is