Arnór heldur áfram að skora

Arnór Smárason fagnar marki fyrir Lillestrøm.
Arnór Smárason fagnar marki fyrir Lillestrøm. Ljósmynd/Lillestrøm

Arnór Smárason skoraði mikilvægt mark fyrir Lillestrøm í gærkvöld þegar lið hans fékk dýrmætt stig á útivelli í baráttunni í neðri hluta norsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu.

Lillestrøm fór norður til Tromsø og gerði þar jafntefli, 1:1. Arnór kom Lillestrøm yfir úr vítaspyrnu á 11. mínútu og skoraði þar með sitt fjórða mark í síðustu fjórum leikjum liðsins. Simen Wangberg náði að jafna fyrir Tromsø seint í leiknum. Lillestrøm er því með 22 stig í 10. sæti, fjórum stigum fyrir ofan Tromsø sem situr í 14. sætinu, umspilssæti deildarinnar, en tvö neðstu liðin af sextán falla.

Matthías Vilhjálmsson lagði upp mark fyrir Herolind Shala hjá Vålerenga strax á 2. mínútu þegar liðið tók á móti Haugesund. Það dugði þó skammt því Vålerenga beið lægri hlut, 1:2, og missti af dýrmætum stigum í baráttunni um Evrópusæti. Liðið er í sjötta sæti deildarinnar með 26 stig, þremur stigum frá fjórða sætinu þar sem Rosenborg situr.

Samúel Kári Friðjónsson lék allan leikinn með Viking sem vann stórsigur á botnliði Strømsgodset, 4:0. Viking er í sjöunda sæti deildarinnar með 25 stig.

Í B-deildinni komst Start, undir stjórn Jóhannesar Harðarsonar, í annað sætið með 2:0 heimasigri á Tromsdalen. Aron Sigurðarson lék allan leikinn með Start sem er með 38 stig eins og Sandefjord en Aalesund er með 47 stig á toppnum og stefnir hraðbyri upp í úrvalsdeildina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert