Balotelli kominn aftur heim

Mario Balotelli í leik með Marseille.
Mario Balotelli í leik með Marseille. AFP

Ítalski knattspyrnumaðurinn Mario Balotelli hefur skrifað undir langtímasamning við Brescia í heimalandinu. Brescia er nýliði í A-deild Ítalíu eftir að liðið bar sigur úr býtum í B-deildinni á síðustu leiktíð. 

Balotelli lék síðast með Marseille og þar á undan Nice í Frakklandi. Hann lék síðast í heimalandinu árið 2016 er hann var að láni hjá AC Mílan frá Liverpool. Hann varð ítalskur meistari með Inter árið 2010 er José Mourinho var stjóri liðins. 

Framherjinn fór þaðan til Manchester City þar sem hann skoraði 30 mörk í 80 leikjum og vann bæði ensku deildina og bikarinn. Balotelli hefur einnig leikið með Liverpool, en náði sér ekki á strik með liðinu. 

Hann hefur leikið 36 landsleiki fyrir Ítalíu og skorað í þeim 14 mörk. Hann spilaði bæði á lokamóti EM 2012 og HM 2014. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert