PSG hafnaði tilboði Barcelona

Neymar er sterklega orðaður við brottför frá PSG þessa dagana.
Neymar er sterklega orðaður við brottför frá PSG þessa dagana. AFP

Franska knattspyrnufélagið PSG hafnaði tilboði Barcelona í brasilíska sóknarmanninn Neymar í gær en það eru spænskir miðlar sem greina frá þessu. Marca greinir frá því að Barcelona hafi boðið PSG að taka Neymar á láni í sumar og borga svo 140 milljónir punda fyrir leikmanninn næsta sumar.

Barcelona keypti Antoine Griezmann frá Atlético Madrid í sumar fyrir 108 milljónir punda og Frankie de Jong frá Ajax fyrir 65 milljónir punda. Félagið þarf því að halda vel um veskið þessa dagana, meðal annars vegna fjárlaga FIFA, FFP. PSG er sagt vilja fá í kringum 230 milljónir punda fyrir Neymar en franska félagið borgaði 200 milljónir punda fyrir leikmanninn sumarið 2017.

Það er upphæð sem Barcelona getur ekki borgað í sumar en PSG er ekki tilbúið að missa leikmannninn fyrir lægri upphæð en þeir borguðu sumarið 2017. Neymar er að glíma við meiðsli og hefur því ekki komið við sögu í fyrstu leikjum liðsins á tímabilinu en hann vill sjálfur komast burt frá Frakklandi. 

Neymar hefur verið sterklega orðaður við endurkomu til Barcelona í allt sumar en þá eru Juventus og Real Madrid einnig sögð áhugasöm um leikmanninn. Neymar sjálfur er hins vegar sagður spenntastur fyrir því að snúa aftur til Barcelona þar sem hann lék á árunum 2013 til ársins 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert