Celtic of sterkt fyrir Kolbein og félaga

Kolbeinn Sigþórsson og félagar eru í slæmum málum.
Kolbeinn Sigþórsson og félagar eru í slæmum málum. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Kolbeinn Sigþórsson og liðsfélagar hans hjá Svíþjóðarmeisturum AIK máttu þola 0:2-tap fyrir Celtic frá Skotlandi á útivelli í Evrópudeildinni í fótbolta í kvöld. Kolbeinn var í byrjunarliði AIK en fór af velli á 72. mínútu, einni mínútu áður en Celtic skoraði annað markið sitt. 

Albert Guðmundsson lék síðasta hálftímann með hollenska liðinu AZ Alkmaar í 1:1-jafntefli á heimavelli gegn Royal Antwerp frá Belgíu. Staðan var 1:0, Royal Antwerp í vil þegar Albert mætti til leiks. 

Sverrir Ingi Ingason var allan tímann á varamannabekk PAOK frá Grikklandi sem mátti þola 0:1-tap fyrir Slovan Bratislava í Slóavkíu. 

Enska liðið Wolves gerði góða ferð til Ítalíu og vann sterkan 3:2-sigur á Tórínó. Fyrsta mark Wolves var sjálfsmark, en Diogo Jota og Raul Jimenez skoruðu annað og þriðja markið. Lorenzo De Silvestri og Andrea Belotti skoruðu mörk Tórínó. 

Steven Gerrard og lærisveinar hans hjá skoska liðinu Rangers gerðu markalaust jafntefli við Legia Varsjá í Póllandi og spænska liðið Espanyol, sem sló Stjörnuna úr leik, vann 3:1-heimasigur á úkraínska liðinu Zorya Luhansk. 

Síðari leikir einvígjanna fara fram eftir viku og fara sigurliðin áfram í riðlakeppnina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert