Goðsögnin hættir sem þjálfari Daníels

Henrik Larsson.
Henrik Larsson. AFP

Sænska goðsögnin Henrik Larsson er hættur sem þjálfari knattspyrnuliðs Helsingborgar í Svíþjóð, en ástæðan er gagnrýni sem hann hefur fengið á sig frá stuðningsmönnum.

Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins í dag. Á Larsson að hafa fengið nóg af skítkasti frá stuðningsmönnum eftir tap fyrir C-deildarliði Oskarshamn í sænsku bikarkeppninni í vikunni.

Þetta er í annað sinn sem Larsson hættir með Helsingborg. Hann gerði það síðast árið 2016 þegar liðið féll úr efstu deild, en hann varð þá fyrir aðkasti frá stuðningsmönnum. Larsson sneri aftur í júní, en er nú farinn aftur tveimur mánuðum síðar.  

KA-maðurinn Daníel Hafsteinsson var keyptur til Helsingborgar fyrr í sumar. Þá yfirgaf Andri Rúnar Bjarnason liðið fyrir stuttu og fór til Þýskalands.

Larsson átti afar farsælan feril sem leikmaður. Spilaði lengi með Celtic í Skotlandi en einnig Barcelona og Manchester United svo eitthvað sé nefnt. Þá lék hann yfir 100 landsleiki fyrir Svíþjóð, en skórnir fóru í hilluna árið 2009, þó hann hafi snúið aftur í neðri deildum Svíþjóðar í skamma stund nokkrum árum síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert