Árni farinn frá Póllandi

Árni Vilhjálmsson í leik með Chornomorets í Úkraínu.
Árni Vilhjálmsson í leik með Chornomorets í Úkraínu. Ljósmynd/Chornomorets

Knattspyrnumaðurinn Árni Vilhjálmsson er farinn frá pólska félaginu Termalica Nieciecza eftir eins árs dvöl. Hann staðfesti þetta við mbl.is í dag.

Árni kom til Nieciecza, sem leikur í pólsku B-deildinni, frá Jönköping í Svíþjóð í september á síðasta ári. Hann var lánaður seinni hluta tímabilsins til Úkraínu þar sem hann lék með Chornomorets Odessa í úrvalsdeildinni og skoraði þar sjö mörk í 14 leikjum.

Hann hóf tímabilið 2019-2020 með Nieciecza en hafði aðeins leikið einn leik þegar hann  gerði starfslokasamning við félagið.

„Þetta hefur allt gerst svo hratt að ég hef ekki haft tíma til að hugsa mikið um næsta skref. Umboðsmaðurinn minn er með nokkur tilboð í höndunum og við eigum eftir að fara yfir þau og skoða framhaldið betur,“ sagði Árni við mbl.is.

Árni er 25 ára gamall sóknarmaður, uppalinn hjá Breiðabliki og lék þar til 2016, að undanskildu hálfu öðru ári með Lilleström í norsku úrvalsdeildinni. Hann lék síðan með Jönköping 2017 og 2018, fyrst í úrvalsdeildinni og síðan í B-deildinni.

mbl.is