Sara ekki með í meistaradeildarleiknum

Sara Björk Gunnarsdóttir í leik með Wolfsburg.
Sara Björk Gunnarsdóttir í leik með Wolfsburg. Ljósmynd/Wolfsburg

Sara Björk Gunnarsdóttir er ekki í eldlínunni með þýska meistaraliðinu Wolfsburg sem þessa stundina á í höggi við Mitrovica frá Kósóvó á útivelli í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu.

Sara sagði í samtali við mbl.is í dag að hún hefði fengið högg á ökklann í bikarleik liðsins um síðustu helgi og því hefði verið ákveðið að hún tæki ekki þátt í þessum leik. Ekki er um alvarleg meiðsl að ræða og reiknar hún með að taka þátt í leiknum gegn Hoffenheim í deildinni á sunnudaginn.

Wolfsburg er á góðri leið með að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitunum en staðan í hálfleik í fyrri viðureign liðanna er 3:0 Wolfsburg í vil.

mbl.is