Gerðu ekki allt sem þeir gátu

Lionel Messi er frá keppni vegna meiðsla.
Lionel Messi er frá keppni vegna meiðsla. AFP

Lionel Messi er ekki sannfærður um að forráðamenn Barcelona hafi gert allt sem þeir gátu til að fá Neymar til félagsins frá PSG í sumar. Neymar var orðaður við Barcelona í allt sumar, tveimur árum eftir að hann yfirgaf félagið fyrir Frakklandsmeistarana. 

Að lokum tókst félögunum ekki að komast að samkomulagi, þrátt fyrir að Neymar hafi boðist til að borga hluta af kaupverði sínu úr eigin vasa. Messi, Neymar og Luis Suárez mynduðu eina bestu sóknarlínu heims á sínum tíma hjá Barcelona og hefði Messi verið til í að spila með þeim aftur. 

„Ég hefði verið til í að fá Neymar aftur,“ sagði Messi í samtali við spænska tímaritið Publication Sport. „Ef ég er hreinskilinn, þá er ég ekki viss um að forráðamennirnir hafi gert allt sem þeir gátu til að fá hann aftur, en ég veit að það er erfitt að semja við PSG. Ég er ekki vonsvikinn. Við erum með magnaðan hóp sem getur barist um alla titla, með eða án Neymars,“ sagði Messi. 

Fregnir þess efnis að Messi mætti yfirgefa Barcelona frítt eftir leiktíðina bárust frá Spáni á dögunum. Messi segist ekki vilja yfirgefa félagið, en bætti við að hann vildi spila með liði sem gæti unnið Meistaradeildina. 

„Barcelona er heimili mitt og ég vil ekki fara. Ég vil hins vegar vinna. Ég vil vinna Meistaradeildina og það er langt síðan síðast,“ sagði Argentínumaðurinn. 

mbl.is