Mikael með nýjan fimm ára samning

Mikael Anderson í leik með U21 árs landsliðinu gegn Lúxemborg …
Mikael Anderson í leik með U21 árs landsliðinu gegn Lúxemborg í síðustu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

U21 árs landsliðsmaðurinn Mikael Anderson hefur framlengt samning sinn við danska úrvalsdeildarliðið Midtjylland.

Mikael, sem er 21 árs gamall kantmaður, er nú samningsbundinn Midtjylland til ársins 2024. Hann gekk í raðir félagsins árið 2016 en var lánaður til danska liðsins Vendsyssel þar sem hann lék tímabilið 2017-18 og á síðasta tímabili var hann í láni hjá hollenska liðinu Exelsior þar sem hann skoraði eitt mark í 17 leikjum.

Midtjylland trónir á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar en eftir átta umferðir er liðið með 22 stig, einu meira en FC Köbenhavn. Mikael hefur spilað sjö þessara leikja og hefur í þeim skorað eitt mark.

Mikael á að baki tólf leiki með U21 árs landsliðinu en hann kom við sögu í báðum leikjum þess í undankeppni EM á dögunum. Hann lék allan seinni hálfleikinn í 3:0-sigri gegn Lúxemborg og fyrstu 70 mínúturnar í 6:1-sigri gegn Armeníu þar sem hann lagði upp fyrsta markið.

Þá hefur hann spilað einn leik með A-landsliðinu en hann lék fyrstu 63 mínúturnar í 6:0-sigri gegn Indónesíu í vináttuleik í janúar í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert