Ronaldo grét í viðtali (myndskeið)

Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. AFP

Cristiano Ronaldo grét í viðtali við breska sjónvarpsmanninn Piers Morgan á ITV-sjónvarpsstöðinni.

Ronaldo gat ekki haldið aftur af tárunum þegar honum var sýnt myndband af föður hans en hann lést þegar Ronaldo var tvítugur að aldri. Faðir Ronaldos glímdi við áfengissýki og lést 52 ára gamall og hann lifði því ekki til að sjá nema brot af afrekum hans. Ronaldo var í herbúðum Manchester United þegar hann missti föður sinn en frá United fór hann til Real Madrid þar sem hann vann allt sem hægt er að vinna og fyrir síðustu leiktíð gekk hann í raðir Juventus.

„Ég hef aldrei séð þetta myndband. Ég verð að fá það og sýna fjölskyldu minni,“ sagði Ronaldo en á myndbandinu er faðir hans að lýsa stolti yfir afrekum sonar síns.

„Ég þekki föður minn ekki 100 prósent. Hann var drykkjumaður og við áttum aldrei venjulegt samtal. Það var erfitt,“ segir Ronaldo í viðtalinu en myndskeið af því þegar hann brestur í grát má sjá hér að neðan.

 

mbl.is