Zlatan skoraði þrennu (myndskeið)

Zlatan Ibrahimovic.
Zlatan Ibrahimovic. AFP

Svíinn Zlatan Ibrahimovic var á skotskónum með liði LA Galaxy í nótt þegar liðið burstaði Kansas City 7:2 í bandarísku MLS-deildinni í fótbolta.

Zlatan skoraði þrennu fyrir sitt lið sem á góða möguleika á að komast í úrslitakeppnina en liðið er í 5. sæti í Vesturdeildinni. Kansas City náði forystunni en Zlatan jafnaði metin áður en fyrri hálfleikur var allur. Hann fór þá á vítapunktinn, markvörður Kansas varði vítaspyrnuna en Svíinn náði frákastinu og skoraði.

Í seinni hálfleik opnuðust allar flóðgáttir og LA Galaxy skoraði sex mörk áður en gestunum tókst að laga stöðuna.

Zlatan hefur þar með skorað 26 mörk á leiktíðinni sem er félagsmet en hann er annar markahæsti leikmaðurinn í deildinni á eftir Carlos Vela sem hefur skorað 28 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert