Búið að stytta leikbann Neymars

Brasilíumaðurinn Neymar.
Brasilíumaðurinn Neymar. AFP

Alþjóðegi íþróttadómstóllinn í Sviss hefur stytt leikbann brasilíska sóknarmannsins Neymars, leikmanns franska meistaraliðsins Paris SG.

Aganefnd evrópska knattspyrnusambandsins úrskurðaði Neymar í þriggja leikja bann í Meistaradeildinni eft­ir um­mæli sem hann lét falla á sam­fé­lags­miðlin­um In­sta­gram. Um­mæl­in lét Neym­ar falla eft­ir 3:1-tap liðsins gegn Manchester United í seinni leik liðanna í sex­tán liða úr­slit­um keppn­inn­ar á Parc de Prince-vell­in­um í Par­ís á síðustu leiktíð.

PSG vann fyrri leik liðanna á Old Trafford 2:0 en United kom­ast í átta liða úr­slit keppn­inn­ar eft­ir að enska fé­lagið fékk um­deilda víta­spyrnu á loka­mín­út­um leiks­ins í Par­ís sem Marcus Rash­ford skoraði úr. Damir Skom­ina, dóm­ari leiks­ins, studd­ist við VAR-mynd­bands­dómgæslu þegar hann dæmdi víta­spyrnu en dóm­ar­inn taldi að Presnel Kim­p­em­be hefði hand­leikið knött­inn inn­an teigs.

Neym­ar var allt annað en sátt­ur með dóm­inn og lét til sín taka á In­sta­gram en hann var ekki með PSG í leikn­um vegna meiðsla. „Þetta er hneyksli! Það voru fjór­ir menn inni í ein­hverju her­bergi, sem hafa ekki hundsvit á fót­bolta, sem dæmdu hendi,“ skrifaði Neym­ar á In­sta­gram-síðu sínu.

PSG og Neymar áfrýjuðu úrskurði UEFA til íþróttadómstólsins í Sviss og niðurstaða dómsins var að stytta leikbann Brasilíumannsins í tvo leiki. Neymar missir því af fyrstu tveimur leikjum Parísarliðsins í riðlakeppni Meistaradeildarinnar sem verða gegn Real Madrid og Galatasaray en hann mætir til leiks með sínum mönnum þegar þeir heimsækja Club Brügge 22. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert