Erfitt að kyngja þessu

Cesar Azpilicueta í leiknum í kvöld.
Cesar Azpilicueta í leiknum í kvöld. AFP

„Það er erfitt að kyngja þessu þar sem við fengum betri færi og stjórnuðum leiknum. Leikir í Meistaradeildinni ráðast á smáatriðum og þeir skoruðu á meðan við nýttum ekki færin,“ sagði Cesar Azpilicueta, fyrirliði Chelsea, í samtali við BT Sports eftir 0:1-tap liðsins fyrir Valencia í Meistaradeild Evrópu í kvöld. 

Chelsea fékk gullið tækifæri til að jafna leikinn undir lokin en Ross Barkley skaut í slá úr vítaspyrnu. „Barkley er ein besta vítaskyttan í liðinu. Hann var með sjálfstraustið í lagi en skaut því miður í slána. Vonandi fer það inn hjá honum næst.“

Spánverjinn segir ungt lið Chelsea geta byggt ofan á þetta í þeim fimm leikjum sem eftir séu í riðlakeppninni. 

Við erum að reyna að byggja eitthvað sérstakt upp. Við erum með ungan hóp, en við verðum að ná í úrslit strax. Þetta er lexía sem við lærum saman sem lið. Það eru enn fimm leikir til að snúa þessu við,“ sagði Azpilicueta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert