Fannst þetta ekki vera vítaspyrna

Jürgen Klopp á hliðarlínunni í kvöld.
Jürgen Klopp á hliðarlínunni í kvöld. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var skiljanlega svekktur eftir 0:2-tap fyrir Napólí á útivelli í 1. umferðinni í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í kvöld. Dries Mertens og Fernando Llorente skoruðu mörk Napólí í seinni hálfleik. 

„Þetta er sárt því við fengum tækifæri. Þetta var opinn leikur með mikið af skyndisóknum, en við náðum ekki að klára okkar, það var vandamálið. Þetta var klikkaður leikur í seinni hálfleik og það var mikið hlaupið.“

Fyrra mark Napólí kom úr víti eftir að Andy Robertson var dæmdur brotlegur innan teigs. Klopp var ekki sáttur við dóminn. 

„Mér fannst þetta ekki vera vítaspyrna. Mér finnst það augljóst og leikmaðurinn er byrjaður að detta áður en það er snerting, en ég get ekki breytt þessu.“

Þjóðverjinn var að mörgu leyti sáttur við spilamennskuna í kvöld, þrátt fyrir úrslitin. 

„Við spiluðum góðan fótbolta en náðum ekki að klára færin. Við stjórnuðum leiknum en þegar upp er staðið sköpuðum við ekki nægilega mikið af færum og við verðum að sætta okkur við þetta,“ sagði Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert