Væri ekki gott að vera í sömu stöðu í næsta mánuði

Birkir Bjarnason.
Birkir Bjarnason. mbl.is/Árni Sæberg

Landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason er enn án félags en vonast til að finna sér nýtt lið áður en langt um líður.

Birkir gerði starfslokasamning við enska úrvalsdeildarliðið Aston Villa í ágúst og hefur síðan þá verið í þreifingum. Ítalskir fjölmiðlar greindu frá því á dögunum að Genoa og Spal væru með Birki undir smásjánni og í gær kom fram í danska blaðinu BT að dönsku úrvalsdeildarliðin FC Köbenhavn og Midtjylland hefðu áhuga á að fá Birki í sínar raðir.

Mbl.is náði tali af Birki í morgun en þá var hann nýkominn inn í flugvél á leið til Íslands.

„Það er ekkert komið á hreint hvað mín mál varðar. Það er verið að vinna í þessu og ég reikna með að heyra í umboðsmanni mínum í dag eða á morgun. Ég vil endilega að þetta  fari að klárast. Það eru tveir landsleikir í næsta mánuði og það væri ekki gott að vera í sömu stöðu þá og ég var í núna fyrir leikina á móti Moldóvu og Albaníu,“ sagði Birkir.

Birkir lék í 79 mínútur í 3:0 sigrinum á móti Moldóvu þar sem hann skoraði eitt markið og hann lék í 71 mínútu í 4:2 tapinu á móti Albaníu í síðustu viku.

„Ég er bjartsýnn á að komast í lið mjög fljótlega. Ég er opinn fyrir öllu og mun velja það sem hentar mér best. Það eru sennilega komin einhver tilboð í mig en við erum ekki komnir það langt að vera búnir að velja eitthvað,“ sagði Birkir, sem lék sinn 80. landsleik gegn Albönum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert