Viljum búa til fleiri sögur til að muna

Jürgen Klopp á fréttamannafundi í Napoli í gær.
Jürgen Klopp á fréttamannafundi í Napoli í gær. AFP

Liverpool hefur titilvörnina í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í kvöld en þá hefst riðlakeppnin.

Liverpool sækir Napoli heim í kvöld en Liverpool fagnaði sigri í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð þegar liðið sigraði Tottenham í úrslitaleik í Madríd.

Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, segir að sínir menn hafi ekki farið framúr sér eftir sigurinn í Meistaradeildinni síðastliðið vor og þeir séu tilbúnir að verja titilinn en Liverpool hefur spilað til úrslita í Meistaradeildinni undanfarin tvö ár.

„Að vinna er gott en það breytir engu. Það er auðvelt að halda áfram eins og venjulega. Við viljum búa til fleiri sögur til að muna í framtíðinni en ekki bara þessa. Við finnum ekki fyrir álaginu. Það er langt síðan, þrír, fjórir mánuðir,“ sagði Klopp á fréttamannafundi í Napólí í gær.

„Við töpuðum öllum útileikjunum í riðlinum á síðasta tímabili og við getum breytt því að minnsta kosti í ár,“ sagði Klopp en Liverpool hóf riðlakeppnina í fyrra með tapi gegn Napoli.

Liverpool hefur byrjað tímabilið frábærlega og hefur unnið alla fimm leiki sína í deildinni á sannfærandi hátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert