Hættulegur töskuburður hjá landsliðunum

Íslensk landslið eru ávallt með mikinn farangur með sér á ...
Íslensk landslið eru ávallt með mikinn farangur með sér á keppnisferðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Danska vinnueftirlitið hefur fyrirskipað danska knattspyrnusambandinu að gera ráðstafanir varðandi töskuburð í kringum landslið þjóðarinnar þannig að starfsmenn sambandsins og landsliðanna bíði ekki heilsutjón af þeirri vinnu.

Þetta kemur fram á vef TV2 sem segir að mikið magn af töskum fylgi ávallt dönsku landsliðunum á ferðalögum. Þær séu oft um eða yfir 20 kíló, starfsmenn sambandsins beri þær til og frá, og burður á þeim geti valdið bakmeiðslum og öðru heilsutjóni.

Knattspyrnusambandinu hefur verið fyrirskipað að finna lausn á þessum burðarmálum þannig að þau verði ekki starfsfólki þess hættuleg.

„Starfsfólkið er í hættu hvað heilsuna varðar. Töskuburðurinn getur valdið skaða, sérstaklega í baki, öxlum og hálsi,“ er haft eftir vinnueftirlitinu.

Jakob Höyer fjölmiðlafulltrúi knattspyrnusambandsins, kveðst vera að vinna ásamt ráðgjafa að lausn málsins og fullyrðir jafnframt að enginn starfsmaður hafi beðið skaða af töskuburðinum, og enginn kvartað yfir honum.

„En auðvitað tökum við þessa kröfu vinnueftirlitsins alvarlega því við viljum að sjálfsögðu ekki að neinn verði fyrir meiðslum í vinnunni,“ segir Höyer við TV2.

mbl.is