Sá þriðji yngsti í sögunni

Erling Braut Haland fagnar einu af þremur mörkum sínum í …
Erling Braut Haland fagnar einu af þremur mörkum sínum í gærkvöld. AFP

Hinn 19 ára gamli Erl­ing Braut Hå­land frá Noregi átti fyrirsagnirnar á fyrsta keppnisdeginum í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í gærkvöld.

Hå­land gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í 6:2 sigri Salzburg gegn Genk í Austurríki og hann varð þar með þriðji yngsti leikmaðurinn til að skora þrennu í Meistaradeildinni en leikurinn í gær var frumraun Hå­lands í Meistaradeildinni.

Sá yngsti til að afreka það að skora þrennu í Meistaradeildinni var spænski framherjinn Raul en hann var 18 ára og 113 daga þegar hann skoraði þrjú mörk fyrir Real Madrid í Meistaradeildinni.

Sá næstyngsti er Wayne Rooney sem var 18 ára og 340 daga gamall þegar hann setti þrennu fyrir Manchester United og það í fyrsta leik sínum í Meistaradeildinni.

Hå­land var 19 ára og 58 daga gamall þegar hann skoraði þrennuna í fyrri hálfleik í leiknum á móti Genk.

Norski strákurinn hefur þar með skorað 17 mörk fyrir Salzburg á tímabilinu en hann gekk í raðir austurríska liðsins frá norska liðinu Molde í janúar á þessu ári.

Hå­land er sonur Alf-Inge Hå­land sem á árum áður lék með Nottingham Forest, Leeds og Manchester City. Hann lék sína fyrstu leiki með norska A-landsliðinu undir stjórn Lars Lagerbäck á dögunum en hann kom við sögu í leikjunum á móti Möltu og Svíþjóð. Í sumar skoraði hann hvorki meira né minna en 9 mörk í leik á móti Hondúras á HM U20 ára landsliða.

mbl.is