Knattspyrnumaður skotinn til bana í Amsterdam

Kelvin Maynard í leik með Burton.
Kelvin Maynard í leik með Burton. Ljósmynd/Burton Albion

Knattspyrnumaðurinn Kelvin Maynard var í gær skotinn til bana í Amsterdam. Lögreglan í Hollandi staðfesti tíðindin. Hinn 32 ára gamli Maynard var í bílnum sínum þegar hann varð fyrir skotárás tveggja manna sem stungu af á vespu. 

Slökkviliðsmenn voru fyrstir á vettvang en ekki tókst að bjarga lífi Hollendingsins. Maynard lék stærstan hluta ferilsins í Hollandi, var um tíma í Portúgal og Ungverjaland en einnig um skeið með Burton Albion á Englandi, ásamt því að spila með Antwerpen í Belgíu og loks með félögum í neðri deildum Hollands undanfarin þrjú ár.

Maynard gekk til liðs við Burton í nóvember 2014 í kjölfar þess að landi hans Jimmy Floyd Hasselbaink var ráðinn knattspyrnustjóri liðsins. Hann lék 10 leiki með Burton er liðið fór upp úr D-deildinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert