Sérstakt augnablik fyrir mig og fjölskylduna

Rúnar Már sækir að Marcus Rashford á Old Trafford í ...
Rúnar Már sækir að Marcus Rashford á Old Trafford í kvöld. AFP

„Þetta spilaðist eins og við reiknuðum með; þeir voru með boltann og markmaðurinn okkar átti góðan leik,“ sagði Rúnar Már Sigurjónsson, leikmaður Astana, við UEFA eftir 0:1-tap liðsins fyrir Manchester United á Old Trafford í Evrópudeildinni í kvöld. 

Astana skapaði sér ekki mikið af færum og var sigur United verðskuldaður þegar upp var staðið. 

„Í stöðunni 0:0 og 1:0 þá trúðum við alltaf að við gætum skorað eitt mark og fengið stig, en við sköpuðum ekki nægilega mikið. United notaði unga leikmenn sem vildu sanna sig og okkur tókst næstum að ná í stig.“

Eins og mbl.is hefur fjallað um er Rúnar mikill stuðningsmaður Manchester United og var því sérstakt fyrir hann að spila á Old Trafford með nánast alla fjölskylduna upp í stúku. 

„Þetta var sérstakt augnablik fyrir mig og fjölskylduna sem var í stúkunni. Það var draumur að spila hérna, en ég hefði viljað færa þeim eitt eða þrjú stig,“ sagði Rúnar. 

mbl.is