Solskjær reyndi tvisvar að fá mig

Rúnar Már fagnar marki með Astana.
Rúnar Már fagnar marki með Astana. Ljósmynd/Twitter-síða Astana

Rúnar Már Sigurjónsson verður í eldlínunni á Old Trafford í kvöld þegar hann leikur með Astana gegn Manchester United í 1. umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar í fótbolta.

Rúnar hefur verið gallharður stuðningsmaður Manchester United frá unga aldri og nokkrum sinnum mætt á Old Trafford til að fylgjast með sínum mönnum en í kvöld verður hann í baráttunni inni á vellinum.

Ole Gunnar Solskjær, stjóri United, sagði í viðtali við Prosports.kz að hann hefði reynt að fá Rúnar til liðs við sig þegar hann þjálfaði norska liðið Molde.

„Við höfum horft á nokkra leiki Astana og sérstaklega í Evrópukeppninni. Þetta lið er sterkt á heimavelli. Liðið samanstendur af góðum leikmönnum og ég þekki til Rúnars Sigurjónssonar sem ég vildi fá þegar ég þjálfaði Molde,“ sagði Solskjær.

„Ég held að Solskjær hafi einu sinni eða tvisvar reynt að fá mig þegar hann var í Noregi. Á þeim tímapunkti á mínum ferli var það kannski ekki það besta í stöðunni fyrir mig að fara þangað en það er heiður að svona góður stjóri og sá leikmaður sem hann var hafi viljað fá mig. Það gerðist ekki en það verður gaman að hitta hann,“ sagði Rúnar við fréttamenn á Old Trafford í gær.

Rúnar Már telur alveg mögulegt að Astana geti komið United á óvart í kvöld.

„Auðvitað er gaman að spila á leikvangi eins og þessum og sérstaklega hér því í mínum huga er Manchester United stærsta félagið í heimi. Það er draumur að fá að spila hér en það yrði ennþá betra ef okkur tækist að ná góðum úrslitum,“ sagði Rúnar en stór hópur af vinum hans og ættingjum verður á Old Trafford í kvöld og flestir af þeim hafa verið miklir stuðningsmenn Manchester United í gegnum árin.

„Allir í minni fjölskyldu eru stuðningsmenn United og flest þeirra koma á Old Trafford á hverju ári. Þetta er sérstök stund fyrir fjölskylduna,“ sagði Rúnar Már.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert