Við gerðum okkur erfitt fyrir

Ole Gunnar Solskjær þakkar stuðningsmönnum eftir leik.
Ole Gunnar Solskjær þakkar stuðningsmönnum eftir leik. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, var þokkalega sáttur eftir 1:0-sigur á Astana Í Evrópudeildinni í kvöld. Flestir bjuggust við öruggum sigri United, en það tók 73 mínútur að skora sigurmarkið. 

„Við gerðum sjálfum okkur erfitt fyrir. Við viljum helst vinna svona leiki á fyrstu 20 mínútunum og svo njóta þess að spila. Það sást að sumir leikmenn hjá okkur hafa ekki verið að spila mikið, en við náðum í stigin þrjú.“

Hinn 17 ára gamli Mason Greenwood skoraði sigurmarkið. Ásamt honum fengu leikmenn eins og Angel Gomes og Tahith Chong tækifæri í byrjunarliðinu. 

„Við vitum að Greenwood er sterkur í teignum og einn sá besti í liðinu að klára færin. Hann fer ánægður heim. Ég var mjög ánægður með ungu leikmennina í dag. Við myndum ekki leyfa þeim að spila nema þeir væru tilbúnir. Einhverjir af þeim spila ekki við West Ham, en spila við Rochdale í næstu viku.

Ef þú vilt ná langt sem leikmaður Manchester United verður þú að ráða við stuðningsmennina. Greenwood vann leikinn fyrir okkur, Gomes var góður og Chong sýndi takta. Við erum búnir að halda hreinu tvo leiki í röð og við fögnum því,“ sagði Solskjær

mbl.is