Tekst Van Dijk að skáka Messi og Ronaldo?

Virgil van Dijk var frábær með Liverpool á síðasta keppnistímabili.
Virgil van Dijk var frábær með Liverpool á síðasta keppnistímabili. AFP

Besti leikmaður heims verður útnefndur á árlegri uppskeruhátíð Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA sem fram fer í Mílanó á Ítalíu í kvöld. Í karlaflokki eru þeir Virgil van Dijk, leikmaður Liverpool, Cristiano Ronaldo, leikmaður Juventus, og Lionel Messi, leikmaður Barcelona, allir tilnefndir sem leikmaður ársins. 

Messi átti frábært tímabil með Barcelona þar sem hann skoraði 51 mark í 50 leikjum með spænska liðinu sem varð spænskur meistari. Ronaldo skoraði 28 mörk í 43 leikjum með Juventus sem varð ítalskur meistari og þá vann hann einnig þjóðadeildina með portúgalska landsliðinu.

Van Dijk var einn mikilvægasti leikmaður Liverpool á síðustu leiktíð sem vann Meistaradeildina og þá endaði liðið í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 97 stig, stigi minna en Manchester City sem fagnaði sigri. Van Dijk var valinn besti leikmaður UEFA á dögunum og þykir líklegur til afreka í kvöld.

Tveir heimsmeistarar tilnefndir

Í kvennaflokki eru þær Alex Morgan og Megan Rapinoe báðar tilnefndar sem leikmenn ársins. Þær urðu heimsmeistarar með bandaríska landsliðinu sem vann 2:0-sigur gegn Hollandi í úrslitaleik í Lyon á HM í Frakklandi. Þær skoruðu báðar sex mörk á mótinu og voru markahæstar. Þá er Lucy Bronze, leikmaður Lyon og enska landsliðsins, einnig tilnefnd.

Þá eru þeir Pep Guardiola, Jürgen Klopp og Mauricio Pochettino tilnefndir sem þjálfarar ársins í karlaflokki en í kvennaflokki eru það þær Jill Ellis, Phil Neville og Sarina Wiegman sem eru tilnefndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert