Olsen hættir með Færeyinga

Lars Olsen ásamt Gunnari Nielsen landsliðsmarkverði Færeyinga og leikmanni FH.
Lars Olsen ásamt Gunnari Nielsen landsliðsmarkverði Færeyinga og leikmanni FH. AFP

Daninn Lars Olsen lætur af störfum sem landsliðsþjálfari Færeyinga í knattspyrnu þegar undankeppni Evrópumótsins lýkur í nóvember.

Olsen greindi frá þessu á fréttamannafundi í morgun þegar hann opinberaði landsliðshópinn fyrir komandi leiki í næsta mánuði

Olsen hefur stýrt færeyska landsliðinu frá árinu 2011. Í 53 leikjum hafa Færeyingar unnið 8 leiki undir hans stjórn, gert 7 jafntefli og hafa tapað 38.

Færeyingar eru án stiga í undankeppni EM. Þeir mæta Möltu og Rúmeníu í næsta mánuði og leika svo við Svía og Norðmenn í nóvember. Olsen lék 84 leiki með danska landsliðinu og varð Evrópumeistari með því á eftirminnilegan hátt árið 1992.

Daninn Bo Henriksen þjálfari danska liðsins Horsens er einn þeirra sem hafa verið orðaðir við landsliðsþjálfarastarfið hjá Færeyingum en hann lék á árum áður með Val, Fram og ÍBV. Þá hafa nöfn Guðjóns Þórðarsonar, þjálfara NSÍ, og Heimis Guðjónssonar, þjálfara HB, verið nefnd til sögunnar en Heimir er að taka við þjálfun Vals og þar með er hann út úr myndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert