Segja að Aron hafi ekki brotnað

Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katarska knattspyrnufélagið Al-Arabi tilkynnti fyrir stundu að Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði Íslands hefði ekki ökklabrotnað í leiknum gegn Al Khor í kvöld eins og óttast var.

Aron var borinn af velli undir lok leiksins eftir að brotið var illa á honum og hætta var  talin á að ökklinn hefði brotnað.

„Fyrsta skoðun leiddi í ljós að Aron Gunnarsson væri ekki ökklabrotinn," segir í stuttri og einfaldri twitter-færslu hjá Al-Arabi.

Það kemur síðan í ljós á næstu sólarhringum hvort Aron verði leikfær þegar Ísland mætir Frakklandi og Andorra á Laugardalsvellinum í undankeppni EM 11. og 14. október.

Al-Arabi, undir stjórn Heimis Hallgrímssonar, er komið með 13 stig eftir fyrstu fimm leikina og hefur tapað fæstum stigum allra í deildinni en er stigi á eftir toppliðinu Al Duhail.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert