Belgar fyrstir að tryggja sig inn á EM

Eden Hazard leikur listir sínar með boltann í leiknum gegn …
Eden Hazard leikur listir sínar með boltann í leiknum gegn San Marínó í kvöld. AFP

Belgar voru fyrsta þjóðin til að tryggja sér farseðilinn í úrslitakeppni Evrópumóts karlalandsliða í knattspyrnu í kvöld þegar þeir burstuðu San Marínó á heimavelli 9:0.

Belgarnir hafa þar með fullt hús stiga eftir sjö umferðir í I-riðlinum. Belgar voru 6:0 yfir í hálfleik en létu sér nægja að bæta þremur mörkum við í seinni hálfleik. Romelu Lukaku skoraði tvö af mörkum Belga og þeir Nacer Chadli, Toby Alderweireld, Youri Tielemans, Christian Benteke, Yari Verschaer og Timothy Castagne skoruðu sitt markið hver og eitt markanna var sjálfsmark.

Rússar eru í dauðafæri á að fylgja Belgum áfram en þeir skelltu Skotum 4:0. Rússar eru með 18 stig í öðru sæti, þremur stigum á eftir Belgum en átta stigum á undan Kýpur. Artem Dzyuba skoraði tvö af mörkum Rússa í kvöld.

Memphis Depay skoraði tvö marka Hollendinga.
Memphis Depay skoraði tvö marka Hollendinga. AFP

Í C-riðlinum fóru Hollendingar með sigur af hólmi gegn N-Írum 3:1. Josh Magennis kom N-Írum í forystu á 75. mínútu en á síðustu 10 mínútum leiksins skoruðu Hollendingar þrívegis og tryggðu sér sigurinn. Memphis Depay skoraði tvö mörk og Frenkie de Jong eitt. Þýskaland, N-Írland og Holland eru öll með 12 stig en Þjóðverjar eiga leik til góða.

Króatar eru komnir á toppinn í E-riðlinum eftir sigur gegn Ungverjum 3:0. Luka Modric, Bruno Petkovic og Ivan Perisic úr vítaspyrnu settu mörkin fyrir Króata sem eru með 13 stig í efsta sæti. Slóvakar, sem gerðu 1:1 jafntefli við Wales eru með 10 stig, Ungverjar hafa 10 og Walesverjar 7.

Markavélin Robert Lewandowski skoraði öll mörk Pólverja í 3:0 útisigri gegn Lettum. Pólverjar eru í efsta sæti G-riðilsins með 16 stig, Austurríkismenn eru með 13 og N-Makedóníumenn og Slóvenar eru með 11. Austurríki vann 3:1 sigur á móti Ísrael og N-Makedónía hafði betur á móti Slóveníu 2:1 þar sem Eljif Elmas skoraði bæði mörk N-Makedóníu.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert