Brasilía gerði jafntefli í 100. landsleik Neymars (myndskeið)

Neymar með boltann í leiknum gegn Senegal í dag.
Neymar með boltann í leiknum gegn Senegal í dag. AFP

Brasilía og Senegal skildu jöfn 1:1 í vináttuleik sem fram fór í Singapúr í dag þar sem Neymar lék sinn 100. landsleik fyrir Brasilíumenn.

Roberto Firmino, sóknarmaðurinn skæði í liði Liverpool, kom Brasilíumönnum í forystu á 9. mínútu en Famara Diedhiou jafnaði metin fyrir Senegal á 45. mínútu og þar við sat.

Brassarnir stilltu upp sterku liði í dag en meðal þeirra sem voru í liði þeirra voru Neymar, Roberto Firmino, Philippe Coutinho, Gabriel Jesus og Thiago Silva.

Neymar varð í dag sjöundi leikmaðurinn sem nær að spila 100 landsleiki eða fleiri fyrir Brasilíu og er hann yngsti leikmaðurinn sem nær þeim áfanga. Hinir sex eru Cafu, Roberto Carlos, Dani Alves, Lúcio, Cláudio Taffarel og Robinho.

mbl.is