Ósáttur við hlutskipti sitt

Emre Can hefur lítið spilað fyrir Juventus síðan Maurizio Sarri …
Emre Can hefur lítið spilað fyrir Juventus síðan Maurizio Sarri tók við liðinu. AFP

Emre Can, miðjumaður Juventus, er ósáttur við hlutskipti sitt hjá ítalska stórliðinu. Can gekk til liðs við Juventus á frjálsri sölu sumarið 2018 en hann kom til félagsins frá Liverpool. Can spilaði mikið á sínu fyrsta tímabili með liðinu þegar Juventus varð Ítalíumeistari en frá því Maurizio Sarri tók við stjórnartaumunum hefur Can lítið fengið að spila.

Þá var Can ekki í Meistaradeildarhópi Juventus sem fór mikið í taugarnar á leikmanninum. „Ég er ekki ánægður hjá Juventus eins og staðan er í dag,“ sagði Can í samtali við þýska fjölmiðla í gær. „Ég var í stóru hlutverki á síðustu leiktíð og spilaði alla mikilvægustu leiki liðsins. Ég stóð mig vel en ég hef ekki fengið nein tækifæri í ár til að sýna mig.“

„Ég vona hins vegar að þegar ég sný aftur til félagsins muni ég í það minnsta fá tækifæri til þess að sýna mig og sanna. Ég er þakklátur landsliðsþjálfara Þýskslands fyrir að velja mig í hópinn þrátt fyrir að ég sé lítið að spila. Það gefur mér aukið sjálfstraust að spila fyrir þjóð mína og vonandi get ég tekið það með mér til Ítalíu,“ sagði Can.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert