Stórstjörnur á förum?

Edinson Cavani gæti verið á förum frá París eftir sex ...
Edinson Cavani gæti verið á förum frá París eftir sex ár í frönsku höfuðborginni. AFP

Edinson Cavani og Thiago Silva, leikmenn franska knattspyrnufélagsins PSG, gætu báðir yfirgefið félagið næsta sumar þegar samningar þeirra renna út. ESPN greinir frá því að PSG hafi ekki boðið þeim nýjan samning og þeim er því frjálst að ræða við önnur félög í janúar á næsta ári.

Cavani hefur áhuga á því að vera áfram í París en hann er orðinn 32 ára gamall. Hann hefur spilað með PSG frá árinu 2013 en hann kom til félagsins frá Napoli. Cavani hefur verið óheppinn með meiðsli á þessari leiktíð og aðeins byrjað þrjá leiki í frönsku 1. deildinni. Þrátt fyrir það hefur hann skorað tvö mörk í þessum þremur leikjum.

Thiago Silva hefur verið fyrirliði liðsins undanfarin ár en hann kom til félagsins frá AC Milan árið 2012. Silva er orðinn 35 ára gamall en hann hefur sjö sinnum verið í byrjunarliði Parísarliðsins í deildinni á þessari leiktíð og einu sinni komið inn á sem varamaður. Silva hefur verið orðaður við endurkomu til heimalands síns Brasilíu.

mbl.is