FIFA viðurkennir ekki markafjölda Ronaldo

Cristiano Ronaldo fagnar marki sínu í leiknum í Lissabon í …
Cristiano Ronaldo fagnar marki sínu í leiknum í Lissabon í gærkvöld. AFP

Því var víða slegið upp í fjölmiðlum í gærkvöld að Cristiano Ronaldo hefði skorað sitt 700. mark í opinberum meistaraflokksleik í fótbolta í gærkvöld þegar Portúgal sigraði Lúxemborg 3:0 í undankeppni Evrópumótsins.

Þetta viðurkennir hinsvegar FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandið, ekki og telur að mörk Portúgalans til þessa séu 699 talsins. 

Ronaldo fær næsta tækifæri til að skora 700. markið strax á mánudagskvöldið þegar Portúgalar sækja Úkraínumenn heim í toppslag í B-riðli undankeppninnar.

Úkraínumönnum nægir jafntefli til að gulltryggja sér sæti á EM en þeir eru með 16 stig af 18 mögulegum og eiga tveimur leikjum ólokið. Gegn Portúgölum sem eru með 11 stig og eiga þrjá leiki eftir, og gegn Serbum, sem eru með 7 stig og eiga þrjá leiki eftir. 

Vinni Portúgalar leikinn eru Serbar enn með í myndinni og geta komið sér í hreinan úrslitaleik við Úkraínumenn í lokaumferðinni, takist þeim að sigra Litháen og Lúxemborg í millitíðinni.

mbl.is