Sögulegur sigur hjá Andorra

Aron Einar Gunnarsson í baráttunni við markvörð og varnarmann Andorra …
Aron Einar Gunnarsson í baráttunni við markvörð og varnarmann Andorra í fyrri leik Íslands og Andorra í undankeppninni. AFP

Leikmenn Andorra mæta til Íslands með gott sjálfstraust en Ísland mætir Andorra í undankeppni EM í knattspyrnu á Laugardalsvellinum á mánudagskvöldið.

Andorra vann sögulegan sigur í gærkvöld þegar liðið hafði betur gegn Moldóvu 1:0. Þetta var fyrsti sigur Andorra í undankeppni EM frá upphafi en fyrir leikinn í gær hafði Andorra ekki tekist að vinna í 56 leikjum.

Andorra, sem er í 139. sæti á styrkleikalista FIFA, hefur hins vegar náð að vinna tvo leiki í undankeppni HM. Andorramenn lögðu Makedóníumenn að velli 1:0 árið 2004 og unnu Ungverja með sama mun árið 2017.

Ísland vann Andorra 2:0 í fyrri leiknum í riðlinum í mars þar sem Birkir Bjarnason og Viðar Örn Kjartansson skoruðu mörk íslenska liðsins.

Andorra er með 3 stig í riðlinum eins og Moldóva en Ísland er með 12 stig er í þriðja sæti á eftir Frakklandi og Tyrklandi sem eru með 18 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert