Leyfið Lagerbäck að skrifa upphæðina

Joshua King, Martin Ødegaard og Lars Lagerbäck á blaðamannafundi í …
Joshua King, Martin Ødegaard og Lars Lagerbäck á blaðamannafundi í Ósló á föstudaginn. AFP

Svíinn sjötugi Lars Lagerbäck var afar vinsæll sem þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta á árunum 2011-2016 og hann virðist ekki síður njóta hylli í Noregi, alla vega hjá leikmönnum norska landsliðsins.

Lagerbäck tók við Noregi árið 2017 og skrifaði undir samning sem rennur út næsta sumar. Hann hefur sagst reikna með því að hætta þá. Undir stjórn Lagerbäck hafa Norðmenn hins vegar ekki tapað leik á heimavelli síðan hann tók við liðinu og það breyttist ekki í 1:1-jafnteflinu við Spán í undankeppni EM um helgina. Noregur á í erfiðri baráttu um að komast upp úr F-riðli og á EM en á hins vegar sem varaleið öruggt sæti í umspili í mars. Því gæti vel farið svo að hann stýri Noregi í lokakeppni stórmóts, eins og hann gerði sem þjálfari Íslands og Svíþjóðar.

„Hann er mjög skýr varðandi það hvað hann vill að við gerum og hefur verið það frá fyrsta degi. Hann hefur mikla trú á okkur og sýnir það glögglega,“ sagði Omar Elabdellaoui, varafyrirliði Noregs, við Eurosport. „Hann endurtekur hlutina mikið og þannig lærum við hvað hann vill. Þetta felur í sér mikil fundahöld en það skilar líka árangri. Ég reyni að gera mitt til þess að halda honum hérna,“ sagði Elabdellaoui. 

Kristoffer Ajer vill einnig að Lagerbäck verði áfram: „Að sjálfsögðu. Hann er stórkostlegur þjálfari svo ég vona að hann haldi kyrru fyrir,“ sagði Ajer. Joshua King, sem tryggði Noregi jafntefli við Spán með marki úr víti, var jafnvel enn afdráttarlausari í sínu svari:

„Þeir [forráðamenn norska knattspyrnusambandsins] verða að gefa Lars ávísun og leyfa honum að skrifa upphæðina sjálfur. Þá er hann kominn með nýjan samning,“ sagði King.

mbl.is