Sigurfögnuður Tyrkja gegn Albönum rannsakaður

Cenk Tosun, lengst til hægri, fagnar sigurmarkinu gegn Albönum ásamt …
Cenk Tosun, lengst til hægri, fagnar sigurmarkinu gegn Albönum ásamt samherjum sínum. AFP

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur staðfest að fagnaðarlæti tyrknesku landsliðsmannanna í knattspyrnu á föstudagskvöldið, þegar þeir tryggðu sér 1:0 sigur á Albönum í undankeppni EM í Istanbúl, verði rannsökuð.

Cenk Tosun skoraði sigurmarkið í uppbótartíma og í kjölfarið heilsuðu þeir áhorfendum að hermannasið, auk þess sem þeir endurtóku þann leik í búningsklefanum eftir leikinn. Tyrkir eru sem kunnugt er í baráttu við Íslendinga og Frakka um sæti í lokakeppni EM 2020.

Fjölmiðlafulltrúi UEFA, Philip Townsend, staðfesti að málið yrði rannsakað.

„Ég hef ekki séð atvikið en það gæti verið metið þannig að það væri til þess fallið að æsa áhorfendur upp. Okkar reglur banna að viðhafðar séu skírskotanir til pólitíkur og trúmála og þetta verður því rannsakað," sagði Townsend, samkvæmt fréttastofunni Ritzau.

Cenk Tosun skrifaði á Instagram eftir leikinn að hann hefði gert þetta til heiðurs hinum djörfu hermönnum Tyrklands, en Tyrkir réðust á miðvikudaginn síðasta inn í Sýrland þar sem þeir herja á byggðir Kúrda á landamærum ríkjanna.

Á síðasta ári hlutu Svisslendingarnir Granit Xhaka, Xherdan Shaqiri og Stephan Lichtsteiner refsingar fyrir að fagna marki með tilvísunum til frelsisbaráttu Kósóvó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert