Frakkland og Tyrkland skildu jöfn

Olivier Giroud fagnar marki sínu gegn Tyrkjum á Stade de …
Olivier Giroud fagnar marki sínu gegn Tyrkjum á Stade de France. AFP

Frakkland og Tyrkland skildu jöfn á Stade de France í París í Frakklandi í kvöld þegar liðin mættust í H-riðli okkar Íslendinga í undankeppni EM 2020 í knattspyrnu. Leiknum lauk með 1:1-jafntefli en það var Olivier Giroud sem kom Frökkum yfir á 76. mínútu áður en Kaan Ayhan jafnaði metin fyrir Tyrki á 82. mínútu og þar við sat.

Þá unnu Albanar stórsigur gegn Moldóvu á Zimbru-vellinum í Chișinău í Moldóvu, 4:0, en staðan í hálfleik var 3:0, Albönum í vil. Sokol Cikalleshi kom Albönum yfir á 22. mínútu og Keidi Bare tvöfaldaði forystu Albana á 34. mínútu. Lorenc Trashi skoraði þriðja mark Albana á 40. mínútu áður en Rey Manaj bætti við fjórða marki í uppbótartíma og þar við sat.

Frakkland og Tyrkland eru áfram í efstu sætum H-riðils með 19 stig eftir átta umferðir en Ísland kemur þar á eftir með 15 stig. Albanar eru í fjórða sæti riðilsins með 12 stig og Andorra og Moldóva reka lestina með 3 stig hvort.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert