Dramatík þegar Spánn tryggði EM sætið

Spánverjar trylltust úr gleði þegar Rodrigo jafnaði metin fyrir þá …
Spánverjar trylltust úr gleði þegar Rodrigo jafnaði metin fyrir þá gegn Svíum í Stokkhólmi. AFP

Rodrigo reyndist hetja Spánverja gegn Svíum í Stokkhólmi í F-riðli undankeppni EM í knattspyrnu í kvöld. Leiknum lauk með 1:1-jafntefli en Marcus Berg kom Svíþjóð yfir á 50. mínútu áður en Rodrigo jafnaði metin fyrir Spán í uppbótartíma og tryggði þeim sæti í lokakeppni EM.

Spánverjar eru í efsta sæti riðilsins með 20 stig þegar tvær umferðir eru eftir. Spánn á eftir að leika gegn Möltu og Rúmeníu en Svíþjóð er í öðru sæti riðilsins með 15 stig. Rúmenía og Svíþjóð eiga eftir að mætast og því eru Spánverjar öruggir á EM eftir jafntefli kvöldsins.

Lars Lagerbäck og lærisveinar hans í norska landsliðinu sóttu stig til Búkarest en Alexandru Mitrita kom Rúmeníu yfir á 62. mínútu. Alexander Sörloth jafnaði metin fyrir Norðmenn í uppbótartíma og liðin skiptu því með sér stigunum. Rúmenía er í þriðja sæti riðilsins með 14 stig og á enn þá möguleika á því að fara á EM en Noregur er í fjórða sætinu með 11 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert