Forseti búlgarska knattspyrnusambandsins búinn að segja af sér

Stuðningsmenn Búlgara á leik Búlgaríu og Englands í gærkvöld.
Stuðningsmenn Búlgara á leik Búlgaríu og Englands í gærkvöld. AFP

Borislav Mihaylo, forseti búlgarska knattspyrnusambandsins, er hættur en öll spjót hafa staðið á honum eftir að tvívegis þurfti að stöðva leik Búlgaríu og Englands í undankeppni EM í gærkvöldi vegna rasisma búlgarskra stuðningsmanna.

Fyrr í dag krafðist Boy­ko Borisov, for­sæt­is­ráðherra Búlgaríu, þess af Mihaylo að hann segði af sér og bætti því við að rík­is­stjórn­in myndi slíta öll tengsl við búlgarska knatt­spyrnu­sam­bandið, þar á meðal fjár­hags­leg­an stuðning, þar til Mihaylov léti af störfum.

Mihaylov hefur nú orðið við þessari beiðni forsætisráðherrans.

Í yfirlýsingu á vef búlgarska knattspyrnusambandsins segir:

„Í dag kynnti forseti búlgarska knattspyrnusambandsins afsögn sína sem verður afhent framkvæmdastjórn sambandsins á fundi á föstudaginn. Ákvörðun hans kemur vegna spennu sem hefur skapast undanfarna daga sem hefur skaðað búlgarskan fótbolta og búlgarska knattspyrnusambandið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert