Stórt tap hjá lærisveinum Helga

Andrea Belotti skoraði tvívegis fyrir Ítalíu gegn Liechtenstein í kvöld.
Andrea Belotti skoraði tvívegis fyrir Ítalíu gegn Liechtenstein í kvöld. AFP

Helgi Kolviðsson og lærisveinar hans í landsliði Liechtenstein þurftu að sætta sig við stórt tap gegn Ítalíu á Rheinpark-vellinum í Liechtenstein í J-riðli undankeppni EM í kvöld. Leiknum lauk með 5:0-sigri Ítala en Federico Bernardeschi kom Ítölum yfir strax á 2. mínútu og eftir það var róðurinn þungur.

Liechtenstein tókst hins vegar að halda aftur af Ítölum í fyrri hálfleik og var staðan 1:0 í hálfleik. Andrea Belotti, Alessio Romagnoli og Stephen El Shaarawy bættu hins vegar við mörkum fyrir Ítala í síðari hálfleik og þar við sat. Ítalir voru búnir að tryggja sig inn á EM fyrir leik kvöldsins en þeir eru með fullt hús stiga í efsta sæti riðilsins á meðan Liechtenstein rekur lestina með tvö stig.

Þá unnu Grikkir  2:1-sigur gegn Bosníu á Ólympíuleikvanginum í Aþenu. Evangelos Pavlidis kom Grikkjum yfir á 30. mínútu en Amer Gojak jafnaði metin fyrir Bosníu fimm mínútum síðar. Adnan Kovacevic varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 88. mínútu og Grikkir fögnuðu í leikslok.

Grikkir eru í fimmta sæti riðilsins með 8 stig eftir átta leiki en Bosnía er í fjórða sætinu með 10 stig og á lítinn möguleika á því að komast í lokakeppnina eftir tap kvöldsins. Finnar taka á móti Liechtenstein 15. nóvember í Helsinki og fari svo að Finnar vinni, sem verður að teljast afar líklegt, eru þeir komnir í lokakeppni EM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert