Á frekar von á því að Birkir semji við okkur

Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. mbl.is/Eggert

„Birkir er hjá okkur og er í viðræðum við félagið og svo er það bara undir honum komið hvort hann gangi raðir félagsins og verði með okkur fram í janúar. Ég á frekar von á því að hann Birkir semji við okkur en það er auðvitað hann sem tekur loka ákvörðunina,“ sagði Heimir Hallgrímsson, þjálfari Al-Arabi, í samtali við mbl.is en landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason kom til Katar í gær.

Ef Birkir tekur tilboði Al-Arabi fer hann í læknisskoðun í dag og skrifar svo undir samning á morgun sem gildir fram í janúar. Birkir hefur verið án félags frá því hann rifti samning sínum við enska úrvalsdeildarliðið Aston Villa í ágúst en hann hefur spilað alla leiki Íslands í undankeppni EM og var heilt yfir besti leikmaður landsliðsins í leikjunum við Frakkland og Andorra á Laugardalsvelli.

Honum er ætlað að fylla skarð landsliðsfyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar sem sleit liðband í ökkla fyrir tæpum hálfum mánuði og kemur ekki til að spila næstu mánuði. Reglur kveða á um í Katar að ef útlendingur er frá vegna meiðsla í meira en tvo mánuði þá má fá nýjan leikmann fyrir hann en sá leikmaður verður að vera án félags.

Heimir Hallgrímsson og Birkir Bjarnason
Heimir Hallgrímsson og Birkir Bjarnason AFP

Aron Einar frá keppni til áramóta

„Við búumt við því að Aron Einar verði frá keppni til áramóta. Hann má ekkert byrja að hreyfa sig fyrr en í fyrsta lagi eftir mánuð en læknar hafa talað um að það taki í það minnsta tvo og hálfan mánuð fyrir Aron að ná sér góðum eftir svona aðgerð sem hann fór í,“ sagði Heimir við mbl.is.

Tímabilið hefur byrjað vel hjá Heimi og lærisveinum hans en eftir fimm umferðir er liðið í öðru sæti deildarinnar, er stigi á eftir Al Duhail, sem hefur spilað einum leik meira. Al-Arabi hefur unnið fjóra leiki og gert eitt jafntefli.

„Það gengur bara vel hjá okkur og gaman því það er langt síðan það hefur verið svona gangur á liðinu. Ég held að það séu liðin 22 ár síðan það vann eitthvað. Tveir næstu leikir eru við lið sem við erum að berjast við um efstu sætin,“ sagði Heimir.

Á sunnudaginn tekur Al-Arabi á móti Al Gharafa sem er í fimmta sæti deildarinnar og þar gæti Birkir Bjarnason spilað sinn fyrsta leik.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert