UEFA rannsakar fögnuð Tyrkja

Tyrkir fagna jöfnunarmarkinu á Stade de France í fyrrakvöld.
Tyrkir fagna jöfnunarmarkinu á Stade de France í fyrrakvöld. AFP

Evrópska knattspyrnusambandið hefur ákveðið að skoða hugsanlegt agabrot Tyrkja vegna hegðunar leikmanna tyrkneska landsliðsins í knattspyrnu í leikjunum gegn Albönum og Frökkum í undankeppni EM.

Í báðum leikjunum fögnuðu Tyrkir mörkum sínum með kveðju að hermannasið en með því voru þeir að styðja yfirstandandi hernaðaraðgerðir Tyrklands í Sýrlandi.

UEFA hefur skipað sérstakan siðfræði- og agaeftirlitsmann til að rannsaka málið.

Á föstudaginn fögnuðu leikmenn Tyrkja marki sem Cenk Tosun skoraði á 90. mínútu í Istanbul með kveðju að hermannasið og þeir gerðu það aftur í París í fyrrakvöld þegar Kaan Ayhan jafnaði metin undir lok leiksins og eftir að dómarinn flautaði til leiksloka.

Mehmet Muharrem Kasapoglu, íþróttamálaráðherra Tyrklands, hefur lýst yfir stuðningi við leikmennina sem heilsuðu hermönnum þjóðarinnar í leiknum á Stade de France og benti á að franski landsliðsmaðurinn Antoine Griezmann hafi heilsað Emmanuel Macron, forseta Frakklands, að hermannasið í júní.

Næsti leikur Tyrkja í undankeppninni er gegn Íslendingum í Istanbul 14. nóvember þar sem Tyrkjum dugar jafntefli til að tryggja sér sæti á EM.

 

 

mbl.is