Goðsögn Búlgara brast í grát (myndskeið)

Hristo Stoichkov.
Hristo Stoichkov. Ljósmynd/Barcelona

Búlgarska fótbolta goðsögnin Hristo Stoichkov brotnaði niður og felldi tár þegar hann ræddi um skammarlega hegðun stuðningsmanna búlgarska landsliðsins í knattspyrnu sem voru með kynþáttaníð í garð leikmanna enska landsliðsins í viðureign Búlgaríu og Englands í undankeppni EM í vikunni.

Leikur Búlgara og Englendinga var í tvígang stöðvaður vegna ras­isma búlgarskra stuðningsmanna og eiga Búlgarar yfir höfði sér refsingu frá evrópska knattspyrnusambandinu.

Stoichkov, sem lék 83 leiki með Búlgaríu á árunum 1986-1999, var í viðtali á spænskri sjónvarpsstöð þar sem málið var til umfjöllunar.

Þegar Stoichkov var spurður um hver lausnin á kynþáttafordómum ætti að vera sagði hann:

„Ekki að leyfa stuðningsmönnunum að koma á völlinn eða beita jafnvel þyngri refsingu,“ sagði Stoichkov áður en hann brast í grát.

Stoichkov er einn besti knattspyrnumaður Búlgaríu frá upphafi. Hann lék í nokkur ár með Barcelona og var útnefndur knattspyrnumaður ársins í Evrópu árið 1994 eftir að Búlgaría hafnaði í 3. sæti á HM.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert