Sjötta landið á ferlinum

Birkir með treyju Al-Arabi.
Birkir með treyju Al-Arabi. Ljósmynd/Al-Arabi

Birkir Bjarnason samdi við Al-Arabi í Katar til þriggja mánaða í gær þar sem honum er ætlað að fylla skarð Arons Einars Gunnarssonar sem á við meiðsli að stríða.

Katar er sjötta land Birkis á ferlinum en hann hefur leikið með Viking og Bodø/Glimt í Noregi, Standard Liege í Belgíu, Pescara og Sampdoria á Ítalíu, Basel í Sviss og Aston Villa á Englandi. Með þessum liðum hefur Birkir spilað 309 deildaleiki og skorað 55 mörk. Hann lék sinn 82. landsleik gegn Andorra á mánudagskvöldið en hann er nú sjöundi leikjahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi og sá níundi markahæsti með 12 mörk.

Líklegt er að Heimir Hallgrímsson tefli Birki fram strax á sunnudaginn þegar Al-Arabi fær Al-Gharafa í heimsókn í deildinni. Liðið á eftir að spila fimm deildaleiki og fjóra leiki í deildabikarnum fram að jólum.

mbl.is