Dramatískt mark Alfreðs gegn Bayern

Alfreð Finnbogason var hetja Augsburg.
Alfreð Finnbogason var hetja Augsburg. AFP

Alfreð Finnbogason var hetja Augsburg sem gerði 2:2-jafntefli við Bayern München í þýsku 1. deildinni í fótbolta í dag. Alfreð byrjaði á bekknum hjá Augsburg en kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik og skoraði jöfnunarmark í uppbótartíma. 

Marco Richter kom Augsburg yfir strax á 1. mínútu en markavélin Robert Lewandowski jafnaði á 14. mínútu. Serge Gnabry kom Bayern yfir á 49. mínútu og bjuggust þá flestir við sigri Bayern. 

Alfreð Finnbogason var ekki á þeim buxunum. Hann kom inn á sem varamaður á 68. mínútu og eins og áður segir tryggði Augsburg eitt stig. Markið er það fyrsta sem Alfreð skorar á leiktíðinni en hann hefur verið að glíma við meiðsli. 

Augsburg er í 15. sæti deildarinnar með sex stig og Bayern í þriðja sæti með 15 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert