Norðmenn vilja halda Lagerbäck

Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari Norðmanna.
Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari Norðmanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Terje Svendsen, forseti norska knattspyrnusambandsins, fer ekki leynt með að sambandið vill að Svíinn Lars Lagerbäck haldi áfram að þjálfa norska karlalandsliðið.

Samningur Lagerbäck, sem er 71 árs gamall, við norska knattspyrnusambandið rennur út eftir úrslitakeppni EM á næsta ári en Svíinn, sem stýrði íslenska landsliðinu frá 2011 til 2015, tók við þjálfun norska landsliðsins í febrúar 2017.

Við erum í viðræðum við Lars Lagerbäck og auðvitað ræðum við framtíðina. Það er ekkert leyndarmál af okkar hálfu að við viljum að Lagerbäck haldi áfram,“ segir Svendsen í viðtali við TV2 í Noregi.

Svendsen segir að aðilar hafi rætt málin í haust en ekki hafi verið um raunverulegar viðræður að ræða.

„Þetta er bara undir Lars sjálfum komið. Við höfum átt góðar samræður við hann og ætlun okkar er að klára þessi mál um áramótin. Lars er klárlega okkar fyrsti valkostur,“ segir Svendsen sem segir að sambandið hafi ekki verið í viðræðum við aðra þjálfara.

 

mbl.is