„Þið verðið að spyrja aðra að því“

Zinedine Zidane á fréttamannafundi í Tyrklandi í dag.
Zinedine Zidane á fréttamannafundi í Tyrklandi í dag. AFP

Zinedine Zidane viðurkennir að hann sé pirraður yfir gagnrýninni á hann sem þjálfara Real Madrid en lið hans býr sig undir útileik gegn Galatasaray í Meistaradeildinni annað kvöld.

Real Madrid þarf svo sannarlega á þremur stigum að halda en uppskera liðsins eftir tvo fyrstu leikina í riðlakeppninni er aðeins eitt stig og er það á botni A-riðilsins. Real Madrid tapaði óvænt fyrir Mallorca á útivelli 1:0 á laugardaginn og þar með jókst pressan á Zidane en undir hans stjórn varð Madridarliðið Evrópumeistari þrjú ár í röð.

„Fótboltinn gleymir því sem þú hefur gert í fortíðinni og það sama gildir um mig. Þetta snýst allt um nútímann. Fortíðin er fortíðin. Ég ætla ekki að segja ykkur að þessi gagnrýni trufli mig ekki því hún angrar mig en ég get ekki komið í veg fyrir að fólk láti sínar skoðanir í ljós,“ sagði Zidane á fréttamannafundi í dag.

Sumir fjölmiðlar á Spáni hafa gefið það í skyn að Zidane verði rekinn ef liðinu tekst ekki að vinna á morgun.

„Ég veit það ekki. Þið verðið að spyrja aðra að því. Ég vil vera hér áfram en staðan getur breyst,“ sagði Zidane.

Belginn Eden Hazard er klár í slaginn eftir að hafa misst af leiknum gegn Mallorca þar sem hann var viðstaddur fæðingu barns síns. Þá er Þjóðverjinn Toni Kroos búinn að jafna sig af meiðslum. Gareth Bale og Luka Modric eru hins vegar á sjúkralistanum og fóru ekki með liðinu til Tyrklands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert