Barcelona nær samkomulagi við Atlético Madrid

Barcelona borgaði 120 milljónir evra fyrir Griezmann í sumar.
Barcelona borgaði 120 milljónir evra fyrir Griezmann í sumar. AFP

Spænska knattspyrnufélagið Barcelona hefur samþykkt að borga Atlético Madrid 16 milljónir evra vegna kaupa Börsunga á Antoine Griezmann í sumar en það eru fjölmiðlar á Spáni sem greina frá þessu.

Forsaga málsins er sú að það varð ljóst síðasta vor að Griezmann yrði ekki áfram í herbúðum Atlético Madrid, þrátt fyrir að hafa skrifað undir nýjan samning við félagið sumarið 2018. Þann 1. júlí síðastliðinn lækkaði verðmiðinn á Griezmann úr 200 milljónum evra í 120 milljónir.

Hann gekk svo til liðs við Barcelona í júlí eins og spáð hafði verið fyrir um að Atlético Madrid kærði Barcelona fyrir að ræða ólöglega við leikmanninn. Forráðamenn Atlético vildu meina að Barcelona hefði haft samband við Griezmann þegar hann kostaði 200 milljónir evra.

Atlético Madrid fór fyrst fram á það við spænska knattspyrnusambandið að Börsungar myndu greiða uppsett verð og þar af leiðandi borga 80 milljónir evra til viðbótart fyrir leikmanninn. Félögin hafa hins vegar sæst á 13 milljónir punda og þar með er málinu lokið.

mbl.is