Ensku liðin unnu stórt í Meistaradeildinni

Raheem Sterling í leiknum gegn Atalanta á Etihad í kvöld.
Raheem Sterling í leiknum gegn Atalanta á Etihad í kvöld. AFP

Manchester City og Tottenham unnu stórsigra í leikjum sínum í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í kvöld. Þá var Paulo Dybala hetja Juventus sem marði heimasigur á Lokomotiv Moskvu en hin stóru liðin, PSG, Real Madríd og Bayern München, unnu öll sigra í kvöld.

Manchester City er í bílstjórasætinu í C-riðlinum eftir 5:1-sigur á Atalanta á Etihad-vellinum. Gestirnir komust yfir á 28. mínútu er Ruslan Malinovskyi skoraði úr vítaspyrnu en sex mínútum síðar fengu heimamenn vítaspyrnu sem Sergio Agüero nýtti til að jafna metin. Argentínumaðurinn kom svo City yfir skömmu síðar áður en Raheem Sterling skoraði þrennu á 11 mínútum í síðari hálfleik til að innsigla sigurinn. City er með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir en Dinamo og Shakhtar Donetsk eru með fjögur stig og Atalanta á botninum, stigalaust.

Tottenham hefur gengið illa undanfarnar vikur og það létti því á pressunni að vinna Rauðu stjörnuna 5:0 í Lundúnum í kvöld. Fyrirliðinn Harry Kane skoraði fyrsta og síðasta mark kvöldsins en Heung-Min Son skoraði tvo og Érik Lamela eitt þar á milli. Tottenham er því búið að vinna sinn fyrsta leik í Meistaradeildinni á tímabilinu og er með fjögur stig í öðru sæti, fimm stigum á eftir toppliði Bayern München sem vann Olympiacos, 3:2, á útivelli í kvöld. Rauða stjarnan er með þrjú stig og Grikkirnir reka lestina með eitt stig.

Þá kom Paulo Dybala stórliði Juventus til bjargar í 2:1-sigri á Lokomotiv Moskvu. Aleksey Miranchuk kom heimamönnum yfir í fyrri hálfleik og stefndi allt í frækinn sigur Rússanna þegar Dybala skoraði í tvígang á þremur mínútum. Juventus endurheimti þar með toppsætið í D-riðli en liðið er fyrir ofan Atlético Madríd á markatölu.

Club Brugge - PSG 0:5
Mauro Icardi 7', 63', Kylian Mbappé 61', 79', 83'

Galatasaray - Real Madríd 0:1
Toni Kroos 18'

Juventus - Lokomotiv Moskva 2:1
Paulo Dybala 77', 79' - Aleksey Miranchuk 30'

Manchester City - Atalanta 5:1
Sergio Agüero 34', 38', Raheem Sterling 58', 64', 69' - Ruslan Malinovskyi 28'

Olympiacos - Bayern München 2:3
Youssef El Arabi 23', Guilherme 79' - Robert Lewandowski 34', 62', Corentin Tolisso 75'

Tottenham - Rauða stjarnan 5:0
Harry Kane 13', 72', Heung-Min Son 16', 44', Érik Lamela 57'

Meistaradeildin í beinni opna loka
kl. 20:54 Leik lokið Öllum leikjum kvöldsins lokið. Ensku liðin unnu stórt og Paulo Dybala kom Juventus til bjargar á heimavelli. Þá unnu hin stóru liðin, Bayern og Real.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert