Umræðan um Mourinho truflandi

Zinedine Zidane er meðvitaður um að hann þarf að ná …
Zinedine Zidane er meðvitaður um að hann þarf að ná árangri til þess að halda starfinu. AFP

Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid, þykir valtur í sessi þessa dagana. Real Madrid tapaði á útivelli fyrir Mallorca í spænsku 1. deildinni um helgina, 1:0, og missti í leiðinni toppsæti deildarinnar til erkifjendanna í Barcelona. Þá hefur Real Madrid ekki enn þá unnið leik í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

José Mourinho, fyrrverandi stjóri liðsins, hefur verið orðaður við endurkomu á Santiago Bernabéu og Zidane er meðvitaður um þá umræðu. „Ég ætla ekki að sitja fyrir framan ykkur og ljúga að ykkur,“ sagði franski stjórinn á blaðamannafundi í Istanbúl fyrir leik Galatasaray og Real Madrid í Meistaradeildinni sem fram fer í kvöld.

„Þessi umræða er truflandi og hún hefur truflað mig. Að sama skapi er lítið sem ég get gert í henni og það eina sem ég get gert er að hugsa jákvætt. Í fótbolta skiptir litlu sem engu máli hvaða afrek þú hefur unnið í gegnum tíðina því það er nútíðin sem skiptir máli,“ bætti Zidane við en hann gerði Real Madrid þrívegis að Evrópumeistururum á árunum 2016 til 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert