Emil orðaður við ítalskt stórlið

Emil Hallfreðsson hefur verið án félags síðan samningur hans við …
Emil Hallfreðsson hefur verið án félags síðan samningur hans við Udinese rann út síðasta sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Emil Hallfreðsson, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, er orðaður við ítalska stórliðið Roma í ítalska miðlinum Corriere dello Sport í dag. Roma leitar nú að miðjumanni þar sem mikil meiðsli herja á miðjumenn liðsins.

Þeir Bryan Cristante, Lorenzo Pellegrini, Amadou Diawara og Henrikh Mkhitaryan eru allir að glíma við meiðsli en Emil hefur verið án félags frá því að samningur hans við ítalska A-deildarliðið Udinese rann út í sumar.

Roma getur ekki keypt leikmann þar sem félagaskiptaglugginn er lokaður en félagið getur hins vegar samið við leikmenn sem eru án félags. Emil er 35 ára gamall en hann hefur leikið með Reggina, Verona, Udinese og Frosinone í ítölsku A-deildinni á ferli sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert